Reglur um félagslega heimaþjónustu

Reglur Bolungarvíkurkaupstaðar um félagslega heimaþjónustu samkvæmt lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga.

1. gr. 

Markmið

Markmið félagslegrar heimaþjónustu er að gera fólki kleift að búa sem lengst í heimahúsi við sem eðlilegastar aðstæður, þrátt fyrir erfiðleika svo sem veikindi, fötlun, álag eða erfiðar fjölskylduaðstæður.

2. gr. 

Réttur til félagslegrar heimaþjónustu

Rétt til heimaþjónustu samkvæmt reglum þessum hafa einstaklingar búa í heimahúsi og geta ekki séð hjálparlaust um heimilishald og/eða persónulega umhirðu vegna skertar getu vegna veikinda, fötlunar, álags eða erfiðra fjölskylduaðstæðna. Í þeim tilvikum sem umsækjandi deilir heimili með fullorðnum einstaklingi (þ.e. 18 ára og eldri) sem ekki glímir við skerta getu vegna ofangreindra atriða, er að öllu jöfnu ekki veitt heimaþjónusta.

3. gr. 

Umsóknir og mat á þjónustu

Sótt er um félagslega heimaþjónustu hjá félagsmálastjóra á þar til gerðum eyðublöðum. Félagsmálastjóri metur þjónustuþörf í samráði við væntanlegan þjónustuþega. Heimilt er að óska eftir læknisvottorði eða greinagerð frá öðrum sérfræðingum um skerta getu þjónustuþega. Þegar umsókn hefur verið samþykkt gerir félagsmálstjóri þjónustusamning við þjónustuþega þar sem fram kemur hvað felst í þjónustunni og hversu oft hún er veitt. Ef umsókn um félagslega heimaþjónustu er synjað skal það gert með skriflegum rökstuðningi. Umsækjandi getur áfrýjað umsókn til velferðarráðs og skal það gert skriflega innan fjögurra vikna frá því að umsækjanda var tilkynnt um synjun.

4. gr. 

Gjaldtaka

Fyrir heimaþjónustu er greitt eftir gjaldskrá sem bæjarstjórn setur. Þjónustuþegar sem eru eingöngu með tekjur frá Tryggingastofnun Ríkisins eða tekjur sem samsvara þeirri upphæð eiga rétt á að sækja um niðurfellingu á gjaldi fyrir heimaþjónustu.

5. gr. 

Hlutverk / verkefni

Hlutverk félagslegrar heimaþjónustu er að veita eftir þörfum:

  1. Aðstoð við almennt heimilishald: s.s. almenn þrif, þvottar, aðstoð við matseld og innkaup.
  2. Aðstoð við persónulega umhirðu sem er ekki í verkahring heimahjúkrunar: s.s. aðstoð við að klæðast og viðveru / eftirlit þegar þjónustuþegi fer í bað.
  3. Félagslegan stuðning: s.s. hvatningu og samveru til að rjúfa félagslega einangrun.
  4. Aðstoð við umönnun barna: þegar fjölskylduaðstæður eru erfiðar s.s. vegna fötlunar, veikinda eða fjölburafæðinga.

6. gr. 

Starfsmenn heimaþjónustu

Starfsmenn félagslegrar heimaþjónustu eru starfsmenn Bolungarvíkurkaupstaðar og taka laun samkvæmt kjarasamningi bæjarins og viðkomandi stéttarfélags. Leitast skal við að ráða fólk til starfa í heimaþjónustu sem hef reynslu af heimilis- og umönnunarstörfum. Velferðarráð skal setja reglur og leiðbeiningar fyrir starfsfólk heimaþjónustu þar sem tiltekin eru verkefni starfsmanna, skyldur þeirra réttindi. Kynna skal reglur þessar fyrir starfsfólki og þjónustuþegum. Starfsmenn heimaþjónustu eru bundnir þagnarskyldu gagnvart þjónustuþegum. Þagnarskylda helst þótt starfsmaður láti af störfum.

7. gr. 

Gildistími

Reglur þessar voru samþykktar í Velferðaráði Bolungarvíkur þann 9. septermber 2008 og í Bæjarstjórn Bolungarvíkur þann 2. október 2008.